Erlent

Áhyggjur af heilsu fólks á Ólympíuleikunum vegna mengunar

Beijing á háannatíma
Beijing á háannatíma MYND/AFP

Einhverjir gestir Ólympíuleikanna í Beijing 2008 geta átt það á hættu að verða fyrir alvarlegum heilsubresti sökum mikillar loftmengunar í borginni. Dr. Michal Krzyzanowski, yfirmaður Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, hefur varað fólk við.

Hann segir að þeir sem þjáist af hjarta-og æðasjúkdómum ættu að fara sérstaklega varlega og eins getur loftmengunin valdið astmaköstum. Krzyzanowski segir mengun í Beijing og öðrum borgum Kína mjög mikla miðað við evrópska staðla en einnig miðað við asíska.

Viðvörunin kemur í tengslum við tilraun yfirvalda í Beijing sem nú stendur yfir. Hún felst í því að fjarlægja 1,3 milljónir bíla af götum borgarinnar í tvo daga til að kanna áhrif þess á mengunina. Ökumönnum bíla með ákveðnum bílnúmeraendingum verður bannað að keyra um göturnar þessa daga. Þeir sem sniðganga bannið mega búast við sektum. Ef tilraunin heppnast vel mun verða gripið til sambærilegra aðgerða á meðan á Ólympíuleikunum stendur.

Íbúar Beijing hafa verið hvattir til að nýta sér almenningssamgöngur á meðan á tilrauninni stendur og virðast þeir ætla að taka vel í það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×