Erlent

Sverð Napóleons selt á 400 milljónir

MYND/AP

Gullbryddað sverð sem áður var í eigu Napóleons Frakkakeisara var selt á litlar 4,8 milljónir evra, jafnvirði rúmlega 400 milljóna íslenskra króna á uppboði í Frakklandi í dag. Þetta er hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir mun sem áður var í eigu keisarans.

Sverðið er með um metra langt blað og hannað undir egypskum áhrifum. Sagt er að Napóleon hafi borið það í bardaganum við Marengo á Ítalíu árið 1800, áður en hann varð keisari, en þar gerði her Frakka skyndiárás á Austuríkismenn og hrakti þá frá Ítalíu. Eftir orrustuna gaf Napóleon bróður sínum sverðið og hefur það haldist í fjölskyldunni fram á þennan dag.

Ekki hefur verið gefið upp hver keypti sverðið í dag en það telst til þjóðargersema Frakka. Útlendingar mega þó eiga það en sverðið verður að vera í Frakklandi helming hvers árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×