Erlent

Hægt að hlusta á Vatnajökul bráðna í símanum

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Sara Paterson kemur hljóðnemanum fyrir.
Sara Paterson kemur hljóðnemanum fyrir. MYND/Reuters

Nú getur maður fylgst með gangi hlýnunar jarðar í símanum sínum. Skoskur listamaður hefur komið hljóðnema fyrir í vatni við rætur Vatnajökuls.

Katie Paterson fékk hugmyndina að verkinu þegar hún sá Vatnajökul í ofsjónum sem hún fékk í sótthitakasti á Íslandi. Hinn 25 ára gamli listamaður ímyndaði sér að vatnið sem hún drakk í veikindunum tengdi hana jöklinum sem það rann úr.

,,Símalínan hvetur fólk til að tengjast jöklinum tilfinningalega" sagði Paterson við Reuters fréttastofuna.

,,Þetta er mjög ljóðrænt: ísfljót sem leysist smám saman upp, hljóðlega og ósýnilega." ,,Það er sorglegt að sjá hverfandi heim"

Paterson er á síðasta ári í Listnámi í Slade School of Art í London. Hún segir loftslagsbreytingar hafa alvarleg áhrif á Vatnajökul en verkefnið vera mest um það hvernig mikilfengleiki jökulsins er að hverfa.

Verkið, sem Paterson kallar ,,Vatnajokull (the sound of)" heldur áfram til 13. júní.

Aðeins einn hlustandi kemst að í einu og segir listamaðurinn það vera til að fólk geti átt, ,,innilega og fallega stund" með jöklinum.

Áhugasamir geta hlustað á jökulinn bráðna í síma +44 7758 225698




Fleiri fréttir

Sjá meira


×