Erlent

Festist við vélargrind og fékk far

Oddur S. Báruson skrifar
MYND/Southbendtribune

21 árs gamall maður í hjólastól varð fyrir heldur óskemmtilegri lífsreynslu á dögunum. Hann var staddur á bílaplani framan við bensínstöð í Michigan í Bandaríkjunum þegar stóll hans festist við vélargrind vörubíls. Áður en manninum tókst að losa sig settist bílstjórinn vörubílsins uppí og keyrði af stað, þess óaðvitandi að væri að ýta manni í hjólastól á undan sér.

Saman þeystu mennirnir út á þjóðveginn á um 85 km. hraða. Fljótlega fór lögreglu að berast símtöl frá vitnum. En enginn trúði að þau væru annað en símahrekkir.

Ferðalaginu lauk því ekki fyrr en vörubílstjórinn stoppaði við höfuðstöðvar fyrirtækis síns og kom, furðulostinn, auga á förunaut sinn. Þá höfðu þeir keyrt saman um 4 mílur.

 

Blessunarlegar slasaðist maðurinn ekki og tók raunar öllu af stakri léttúð. „Þetta var heljarinnar ferð", sagði hann við lögreglu, og fannst verst að poppið hans hafi farið forgörðum á leiðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×