Erlent

Flýta hreinsun á kjarnorkuúrgangssvæði nærri Noregi

MYND/Vilhelm

Rússar hafa lofað Norðmönnum að flýta því að hreinsa upp geislavirkan úrgang á svæði í Múrmansk sem er nærri landamærum Noregs. Töluverð sprengihætta er á staðnum, sem nefnist Andrejev-höfn, og hafa rússnesk kjarnorkuyfirvöld bent á að ef sprenging yrði á svæðinu yrði það hrein kjarnorkumartröð.

Á fundi sem Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, átti í dag með Júrí Jevdikinov, héraðsstjóra í Múrmansk, lofaði sá síðarnefndi að fjarlægja allan kjarnorkuúrgang á svæðinu innan þriggja ára í stað sex og munu Norðmenn áfram leggja fram fé til hreinsunarstarfa.

Á fundinum í dag fékk Stoltenberg enn fremur yfirlitskort af kjarnorkusvæðinu í Andrejev-höfninni. Norsk stjórnvöld studdu gerð þess og það var tilbúið fyrir nokkrum árum en þá neituðu rússnesk yfirvöld að afhenda það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×