Erlent

Stakk dómara með hníf eftir að henni var synjað um forræði

MYND/AFP

Frakkar íhuga nú að herða öryggi í réttarsölum eftir að dómari í borginni Metz varð fyrir árás trylltrar móður. Dómarinn var nýbúinn að kveða upp úrskurð sinn í máli konunnar þegar hún réðst að honum og stakk hann þrisvar með hníf. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir skurðaðgerð. Líðan hans er nú stöðug og hann er ekki í lífshættu.

Konan, sem er 35 ára gömul, missti forræði yfir þriggja ára gömlum syni sínum í fyrra eftir að sýnt þótti að hún væri óhæf til að ala upp barn. Foreldrar föður barnsins fengu forræðið en konan sóttist eftir því að fá það til baka. Þegar dómarinn úrskurðaði henni í óvil trylltist hún með fyrrgreindum afleiðingum.

Haft var eftir Nical Sarkozy, forseta Frakklands, í frönskum fjölmiðlum í dag að hann myndi leita allra leiða til að herða öryggi í réttarsölum til að koma í veg fyrir að svipað gæti gerst aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×