Erlent

Talsmaður danskra neytenda kærir Sterling

Flugfélagið Sterling, sem er í eigu íslenskra aðila, hefur verið kært til lögreglu í Danmörku fyrir verðauglýsingar félagsins á Netinu. Á heimasíðu félagsins var gefið upp verð án skatta og það var ekki fyrr en viðskiptavinurinn var kominn lengra í bókunarferlinu að hið raunverulega verð var gefið upp. Frá þessu er greint á heimasíðu Neytendasamtakanna.

Í frétt á heimasíðu samtakanna er sagt að flugfélagið hafi þverskallast við að breyta þessu þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir frá umboðsmanni neytanda í Danmörku. Þó segir að félagið hafi breytt fyrirkomulaginu í maí síðastliðnum, en kæran standi eftir sem áður.

Neytendasamtökin segja að tíðindin veki upp spurningar hér á landi varðandi fyrirkomulagið hjá íslenskum flugfélögum. Samtökin benda á að samkvæmt íslenskum lögum á að gefa upp verð með skatti og öðrum opinberum gjöldum. Þá sé bannað að veita í auglýsingum rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

„Hvað varðar bókanir á heimasíðum hafa íslensku félögin þó bætt sig verulega," segir í fréttinni á heimasíðu samtakanna. „Icelandair gefur nú upp verð með sköttum og gjöldum frá upphafi bókunarferlisins. IcelandExpress gefur raunar á fyrstu stigum upp verð án skatta og gjalda en hið raunverulega verð til neytandans birtist í litlum kassa öðru megin á síðunni." Þá segir að Flugfélag Íslands standi sig einna verst og er tekið dæmi af fugi til Grænlands þar sem sköttum og gjöldum er ekki bætt við fyrr en seint í bókunarferlinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×