Erlent

Rauði krossinn fordæmir morð á tveimur starfsmönnum á Sri Lanka

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
MYND/AFP

Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans fordæmir brottnám og morð á tveimur starfsmönnum Rauða krossins á Sri Lanka þann 3. júní. Skorað hefur verið á þarlend yfirvöld að hefja tafarlaust rannsókn á morðunum en ekki er vitað hverjir voru að verki.

Sinnarasa Shanmugalingam, 32 ára, og Karthekesu Chandramohan,26 ára, höfðu báðir unnið árum saman í Batticaloadeild Rauða krossins á austurströnd Sri Lanka að því er segir í tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi. Þeir voru á heimleið eftir að hafa sótt námskeið í höfuðborg landsins Colombo ásamt fjórum starfsfélögum sínum þegar þeir voru numdir á brott. Lík þeirra fundust daginn eftir í Kiriella í Ratnapurasýslu í suðurhluta landsins. Ekki er vitað hverjir voru að verki.

"Við erum harmi slegin yfir þessum svívirðilegu morðum og sendum samúðaróskir til aðstandenda og samstarfmanna hinna látnu," sagði Neville Nanayakkara, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Sri Lanka. Alheimshreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans skorar jafnframt á yfirvöld á Sri Lanka að hefja tafarlausa rannsókn á morðunum.

„Rauði krossinn minnir alla aðila sem eiga hlutdeild í átökunum á Sri Lanka að morð sem þessi eru brot á alþjóðlegum mannúðarlögum. Starf mannúðarsamtaka beri að virða, og tryggja verður að öryggi starfsmanna þeirra sé ekki ógnað," segir í tilkynningunni. Þá krefst Rauði krossinn þess að gætt sé að því að starfsmönnum mannúðarsamtaka sem aðstoða óbreytta borgara og þeim sem ekki taka lengur þátt í átökunum sé hlíft við árásum af þessu tagi og að þeir hafi óheftan aðgang til að sinna skjólstæðingum sínum á öruggan hátt.

Ennfremur segir að Rauði krossinn muni halda áfram starfi sínu í landinu. Engir sendifulltrúar eru nú að störfum á eyjunni fyrir Rauða kross Íslands.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×