Enski boltinn

Erikssonn hefur áhuga á að stjórna Manchester City

Sven-Göran Eriksson.
Sven-Göran Eriksson. MYND/Getty Images/AFP

Sven-Göran Eriksson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands, hefur boðist til að taka við enska úrvalsdeildarliðinu Manchester City sem rak Stuart Pearce úr stóli knattspyrnustjóra í lok nýliðins tímabils.

Eriksson hefur ekki þjálfað lið frá því að hann sagði starfi sínu lausu hjá enska knattspyrnusambandinu í fyrrasumar og hefur hann verið orðaður við fjölmörg stórlið.

Manchester City hefur hingað til ekki verið efst á óskalista hans en nú segir hann í samtali við Manchester Evening News að það yrði heiður að þjálfa liðið. Félagið hafi fest sig í sessi í úrvalsdeildinni og eigi mikla möguleika á að sækja ofar á töfluna á næstu árum, en félagið endaði í 14. sæti í ár.

Þrátt fyrir þetta þykir Claudio Ranieri, fyrrverandi knattspyrnustjóri Chelsea, líklegasti eftirmaður Pearce en það er þó talið háð því að milljarðamæringurinn Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, kaupi félagið af núverandi eigendum og tryggi töluvert fé til leikmannakaupa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×