Enski boltinn

Shevchenko vill spila í Bandaríkjunum

Shevchenko skoraði 14 mörk og gaf 12 stoðsendingar í vetur sem hann segir ekki svo slæman árangur.
Shevchenko skoraði 14 mörk og gaf 12 stoðsendingar í vetur sem hann segir ekki svo slæman árangur. MYND/Getty

Úkraínumaðurinn Andriy Shevchenko hefur greint frá því að hann eigi þann draum heitastan að geta spilað í bandarísku atvinnumannadeildinni áður en ferill hans er á enda. Shevchenko segir mikla uppbyggingu vera að eiga sér stað þar vestra og hefur sóknarmaðurinn mikinn áhuga á að taka þátt í henni.

“Mig langar mikið að spila í Bandaríkjunum einn daginn,” viðurkenndi Shevchenko. “Fótbolti er á mikilli uppleið þar í landi og mig langar að taka þátt í þessari uppbyggingu. Ég spilaði sjálfur gegn stjörnuliði deildarinnar í fyrra og tók eftir miklum framförum,” sagði Shevchenko í viðtali við Sports Illustrated.

Shevchenko var enn fremur spurður út í núverandi tímabil sitt hjá Chelsea og hvað honum fannst um eigin frammistöðu í vetur. “Þetta var ekki frábært tímabil en samt ekki það versta,” sagði sá úkraínski.

“Fólk bjóst við mjög miklu af mér. Ég var ekki upp á mitt besta fyrstu fjóra mánuði tímabilsins, bæði vegna meiðsla sem ég náði ekki að hrista af mér og einnig vegna þess að ég var þreyttur eftir HM. Mér fannst síðari hluti tímabilsins miklu betri. Þegar allt kom til alls endaði ég með 14 mörk og 12 stoðsendingar, sem ég tel ekki vera alslæmur árangur miðað við öll þau vandamál sem ég glímdi við.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×