Enski boltinn

Mourinho: Áttum sigurinn skilinn

John Terry, fyrirliði Chelsea, tekur á móti bikarnum í dag.
John Terry, fyrirliði Chelsea, tekur á móti bikarnum í dag. MYND/Getty

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, sagði að sínir menn hefðu átti sigurinn á Man. Utd. í bikarkeppninni í dag skilinn, bæði vegna þess að þeir hafi verið betri í leiknum en ekki síður vegna þess hvernig þeir hafa svarað mótlætinu sem hann telur liðið hefur lent í á tímabilinu - með því að vinna tvo titla.

"Nú höfum við unnið alla titla sem í boði eru á Englandi á síðustu þremur árum," sagði Mourinho eftir leikinn, en þar á hann við ensku deildarkeppnina, ensku bikarkeppnina og enska deildarbikarinn. Chelsea eru sigurvegarar síðustu tveggja keppnanna í ár, en Mourinho hafði aldrei áður stýrt liði sínu til sigurs í FA-bikarnum.

"Leikmenn mínir eiga þennan titil fyllilega skilinn. Tímabilið hefur verið gríðarlega erfitt fyrir þá og við áttum skilið að fara í sumarfrí með þennan bikar. Liðið spilaði mjög vel í dag og fylgdu leikáætlun okkar," sagði Mourinho en hann hrósaði stuðningsmönnum liðsins í hástert.

"Þessir stuðningsmenn verða ávallt í hjarta mínu. Þeir styðja við bakið á okkur alltaf, í blíðu og stríðu. Ég elska þetta fólk," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×