Enski boltinn

Treystir Cole ekki í slaginn gegn Ronaldo

Ashley Cole hefur ekki verið upp á sitt besta í vetur.
Ashley Cole hefur ekki verið upp á sitt besta í vetur. MYND/Getty

Fjölmiðlar í Englandi greina frá því nú í hádeginu að Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hafi ákveðið að taka Wayne Bridge fram yfir Ashley Cole í stöðu vinstri bakvarðar, þar sem hann telji Cole ekki í nægilega góðu formi til að ráða við Cristiano Ronaldo.

Þessum fregnum ber þó að taka með nokkrum fyrirvara því byrjunarlið liðanna í dag hafa ekki verið tilkynnt og því getur vel verið að um sé að ræða uppspuna af hálfu bresku pressunar.

Cole hefur átt við meiðsli að stríða síðustu vikur og frestaði meðal annars nauðsynlegri aðgerð til að geta spilað úrslitaleikinn í dag. Hann viðurkenndi nýlega að hann væri óánægður með eigin frammistöðu á tímabilinu í ár og að hann hefði verið langt frá sínu besta. Hann hefur samt sem áður átt fast sæti í varnarlínu Chelsea og ávallt verið tekinn fram yfir Wayne Bridge.

Bridge hefur hins vegar spilað nokkuð síðustu vikur og þótt hafa staðið sig vel. "Ég vona að ég fái áfram tækifæri í úrslitaleiknum. Ég geri mér engar vonir, en þetta er undir þjálfaranum komið. Vonandi fæ ég að taka einhvern þátt í leiknum," hafði Bridge sagt fyrr í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×