Erlent

Vopnahlé framlengt í Úganda

Ríkisstjórnin í Úganda og fulltrúar í Frelsisher Drottins samþykktu í dag að framlengja vopnahlé sem verið hefur í gildi á milli þeirra um tvo mánuði. Þá var jafnframt samþykkt að efna til friðarfundar 26. apríl í borginni Júba í suðurhluta landsins.

Það var leiðtogi frelsishersins, Joseph Kony, sem undirritaði samkomulagið ásamt ráðherra innri mála í Úganda. Friðarviðræður hófust í júlí í fyrra en upp úr þeim slitnaði í janúar þar sem aðilarnir sökuðu hvorir aðra um að rjúfa fyrri vopnahlé. Hins vegar funduðu deiluaðilar leynilega í vikunni sem leiddi til þess að samningurinn var undirritaður í dag.

Með þessu vakna vonir um að endi verði bundinn á eitt lengsta og versta borgarastríð í Afríku en tugþúsundir manna hafa fallið í tveggja áratuga átökum stríðandi fylkinga og tvær milljónir manna flúið heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×