Enski boltinn

Berger heillaði O´Neill upp úr skónum

Patrik Berger spilaði mjög vel gegn Blackburn á laugardag.
Patrik Berger spilaði mjög vel gegn Blackburn á laugardag. MYND/Getty
Martin O´Neill, stjóri Aston Villa, hefur viðurkennt að frammistaða Tékkans Patrik Berger í viðureign liðsins gegn Blackburn á laugardag hafi heillað hann upp úr skónum. Framtíð Berger hjá Villa hefur verið í mikilli óvissu en það má með sanni segja að hann hafi nýtt tækifærið sem hann fékk í byrjunarliðinu um helgina til fullustu.

Berger verður samningslaus í sumar og hefur það sem af er þessu tímabili verið lítið inni í myndinni hjá O´Neill. Hann var meðal annars lánaður til Stoke í Championship deildinni um áramótin, þar sem hann fékk einnig fá tækifæri.

Berger var óvænt í byrjunarliðinu gegn Blacburn á laugardag og þótti standa sig afar vel. Hann skoraði meðal annars mark í leiknum og var mjög ógnandi í þær 84 mínútur sem hann spilaði. Jafnvel er talið að með frammistöðu sinni hafi hann tryggt sér nýjan samning hjá Aston Villa.

"Þegar ég hugsa til liðsins sem ég er að reyna að byggja upp fyrir næsta tímabil þá vill ég að það verði pláss fyrir Patrik Berger. Að sjálfsögðu vill ég að hann verði áfram. Það sáu allir hvað hann getur í leiknum gegn Blackburn," sagði O´Neill í viðtali við opinbera heimasíðu Aston Villa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×