Erlent

Yfirmenn gríska skemmtiferðaskipsins ákærðir

Skipstjóri og fimm yfirmenn gríska skemmtiferðaskipsins sem fórst á gríska Eyjahafinu í fyrradag hafa verið ákærðir fyrir vanrækslu. Tveggja er enn saknað en um sextán hundruð manns voru um borð í skipinu.

Hátt í tólfhundruð farþegar og um fjögurhundruð áhafnarmeðlimir voru um borð í skemmtiferðaskipinu Sea Dimond þegar það strandaði nærri grísku eyjunni Santorini. Björgunaraðgerðir tóku aðeins þrjár klukkustundir en á þeim tíma tókst að bjarga nærri sextán hundruð manns úr sökkvandi skipinu. Gríski herinn, fraktskip og fiskimenn sem í grennd voru aðstoðuðu við aðgerðirnar. Flestir um borð voru Bandaríkjamenn en einnig voru þar hópar Spánverja og Kanadamanna.

Í dag hafa björgunarsveitir leitað franskra feðgina, sextán ára stúlku og föður hennar, en þau eru þau einu sem saknað er. Farþegar sem um borð voru segja skort hafa verið á björgunarvestum og að lítil hjálp hafi verið í áhafnarmeðlimum. Ferðamannaráðherra Grikklands sagði björgunarmenn hafa unnið þrekvirki en ljóst sé að þeir sem ábyrgð bera á slysinu verða látnir svara til saka.

Yfirmennirnir sex eru ákærðir fyrir að hafa með gáleysi sínu valdið slysinu, að hafa brotið alþjóðlegar öryggisreglur skipa og fyrir að menga umhverfið. Þeir eru allir Grikkir og verði þeir fundir sekir eiga þeir yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi. Skipið var smíðað fyrir rúmlega tuttugu árum og segja eigendur skipsins að viðhald þess hafa verið í fullkomnu lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×