Erlent

Sakar breska herinn um að leikstýra sjóliðunum

Talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins sakar breska herinn um að leikstýra bresku sjóliðunum sem teknir voru fyrir meint landhelgisbrot í íranskri lögsögu. Leiksýning hafi verið sett á svið á blaðamannafundi í gær en hún breiði ekki yfir þá staðreynd að hermennirnir hafi verið í óleyfi í íranskri lögsögu.

Íranar eru ekki sáttir við yfirlýsingar sjóliðanna sem fram komu á blaðamannafundinum í gær. Þar þvertóku þeir fyrir að hafa verið íranskri lögsögu þegar þeir voru handteknir og sögðust hafa verið beittir harðræði af Írönum.

Mohammad Ali Hosseini, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins, sakar breska herinn um að stýra yfirlýsingum sjóliðanna. Þær hafi einungis verið áróðursbragð sem komi ekki í veg fyrir þá staðreynd að sjóliðarnir fóru inn í íranska lögsögu í leyfisleysi. Sjóliðarnir hafi aðeins lesið upp það sem stóð á blað fyrir framan þá og því ekkert að marka það sem þeir sögðu.

Rasoul Mocahedian, sendiherra Írana í Lundúnum, sagði viðbrögð Breta röng, þeir ættu bregðast jákvætt við lausn sjóliðanna fimmtán. Íranski sendiherrann gaf í skyn, þegar hann ræddi við fjölmiðlafólk, að ríkisstjórn hans vildi hjálpa til við að fá fimm íranska embættismenn lausa. Mennirnir eru nú í haldi Bandaríkjamanna í Írak. Hann sagði Írana jafnframt vilja draga úr áhyggjum alþjóðasamfélagsins vegna kjarnorkuáætlunar þeirra. Sendiherrann sagði Írana hafa sýnt góðvilja sinn og nú væri það í höndum bresku ríkisstjórnarinnar að bregðst við á jákvæðan hátt.

Ríkisrekna sjónvarpsstöðin Al-Alam í Íran sýndi beint frá fréttamannafundinum en hætti útsendingunni nokkrum mínútum eftir að fundurinn hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×