Erlent

Loftslagsbreytingar þegar haft varanleg áhrif

Lofstslagsbreytingar hafa þegar haft veruleg og varanleg áhrif á vistkerfi heimsins samkvæmt nýrri skýrslu vísindanefndar Sameinuðu Þjóðanna. Alþjóða Rauði Krossinn segir að skýrslan feli í sér varnaðarorð til ríkisstjórna.

Vísindamenn og erindrekar frá meira en eitt hundrað löndum hafa barist við að ná saman um niðurstöðu og eftir maraþonfundi í nótt náðist loks samkomulag, þótt sumir hafi eflaust verið kátari en aðrir með endanlega útkomu.

Fulltrúar Kínverja, Bandaríkjamanna, Rússa og Sádí Araba reyndu að draga úr túlkunum á niðurstöðunum, en nokkrar Evrópuþjóðir vildu skerpa enn frekar á honum. En hvað sem því líður eru varnaðarorðin skýr. Meira en níutíu prósent líkur eru sagðar á að hlýnun andrúmslofts sé af manna völdum og áhrifin eru þegar mikil og skýr.

Í skýrslunni segir að ef ekki verði þegar gripið í taumana muni yfirborð sjávar hækka mjög á næstu áratugum og meira en milljarður manna gæti átt eftir að þjást af viðvarandi skorti á drykkjarvatni. Alþjóða Rauði Krossinn segir að skýrslan feli í sér varnaðarorð til ríkisstjórna og eins og svo oft áður séu það hinir fátækustu og verst settu sem muni fara verst út úr loftslagsbreytingum á komandi árum. Þjóðir heims verði að bregðast við þegar í stað.

Skýrsla Sameinuðu Þjóðanna verður send til allra helstu leiðtoga heimsins, sem munu síðan fara yfir málin á fundi G8 ríkjanna í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×