Erlent

Obama sækir fast á Hillary í fjáröflun

MYND/AP
Barack Obama mögulegur forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum hefur safnað að minnsta kosti 25 milljónum bandaríkjadala í kosningasjóð sinn. Hillary Clinton sem einnig sækist eftir útnefningu flokksins hefur safnað 26 milljónum. Sú upphæð er met. Kosningalið Obama segir að meira en 100 þúsund aðilar hafi lagt fé í sjóðinn. Þeim sem sækjast eftir tilnefningu bæði repúblikana og demókrata er mikið í mun að geta sýnt fram á framlög frá breiðum hópi stuðningsmanna. Stjórnmálaskýrendur segja Obama, sem er nánast nýliði í pólitík, gæti reynst Hillary mikil ógn. Þetta er fyrsti fjórðungur fjáröflunarinnar fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Samkvæmt fréttavef BBC verður í það minnsta 23,5 milljónum dala af fénu eytt í baráttu hans fyrir útnefningu demókrataflokksins. Hún fer fram snemma á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×