Erlent

Íranar ætla að sleppa breskum sjóliðum

MYND/AP

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, tilkynnti í ávarpi í dag að Íranar myndu sleppa bresku sjóliðunum fimmtán sem þeir hafa haft í haldi og það væri gjöf til Bretlands.

Í ávarpi á fréttamannafundi í Teheran í dag sagði Ahmadinejad enn fremur að hann væri sorgmæddur yfir því að Bretar skyldu hafa farið inn í landhelgi Írans í óleyfi og sagði hann bresk stjórnvöld ekki nógu hugrökk tikl að viðurkenna mistök sín.

Sjóliðarnir 15 voru teknir höndum úti fyrir ströndum Íraks þann 23. mars en síðan þá hafa bresk og írönsk stjórnvöld deilt um það hvort sjóliðarnir hafi verið í landhelgi Írans eða Íraks.

Fram kemur á fréttavef Sky-sjónvarpsstöðvarinnar að Ahmadinejad hefði hrósað strandgæslunni fyrir að handtaka Bretana og notaði hann tækifærið og sæmdi þrjá strandgæsluliða orðu fyrir hugrekki sitt.

Ekki kom fram hvenær sjóliðarnir yrðu afhentir breskum stjórnvöldum en þeir hafa oft birst í sjónvarpi og borið Írönum góða söguna þrátt fyrir að hafa verið í haldi þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×