Enski boltinn

Mourinho: Þetta er búið að vera frábært tímabil

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho, stjóri Chelsea, segir að hann muni alltaf líta til baka á keppnistímabilið sem frábæra leiktíð, jafnvel þó liðið vinni ekki fleiri titla í ár. Hann segist afar stoltur af frammistöðu leikmanna sinna í vetur þar sem meiðsli lykilmanna hafa sett stórt strik í reikninginn hjá tvöföldum Englandsmeisturunum.

"Ég get ekki annað en hlegið þegar ég les sumar af blaðagreinunum sem skrifaðar eru um liðið okkar. Í mínum augum er árangur liðsins frábær í vetur í ljósi þess mótlætis sem við höfum orðið fyrir. Sumir af leikmönnum mínum eru að spila hvern einasta leik og ég er ekki að hugsa um að hvíla menn frekar fyrir eina keppni en aðra. Ég vil vinna alla leiki.

Ég hvíli ekki leikmenn á móti Tottenham um helgina af því ég er með annað augað á Meistaradeildinni. Tímabilið í ár verður alltaf mjög gott - alveg sama þó við vinnum ekki annan titil. Fólk heldur kannski að ég geti betur og að ég sé búinn að taka því rólega í vetur og því sé liðið ekki upp á sitt besta - en sú er ekki raunin. Liðið er að standa sig frábærlega og ég held að við getum náð enn lengra í vor," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×