Erlent

Leita fanga sem frelsaður var úr varðhaldi í Danmörku

Lögregla í Danmörku leitar nú manns sem frelsaður var úr varðhaldi á laugardag í Fredreikssund á Sjálandi. Eftir því sem fram kemur á vef Nyhedsavisen telur lögregla að hann sé enn í Danmörku en muni reyna að komast úr landi, hugsanlega á fölsuðu vegabréfi.

Lögregla hefur birt myndir af manninum í fjölmiðlum, en hann er 29 ára og frá fyrrverandi Júgóslavíu og var handtekinn í tengslum við stórt kókaínmál. Hann var nýlega fluttur í fangelsið í Frederikssund en var frelsaður þegar félagar hans ruddust inn í fangelsið á laugardag.

Segir lögregla að þeir hafi staðið mjög fagmannlega að verki og meðal annars notað nagla til að sprengja dekk lögreglubíla á flóttanum frá fangelsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×