Enski boltinn

United var tveimur mínútum frá titlinum

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, viðurkenndi að líklega hafi Manchester United verið tveimur mínútum frá því að tryggja sér enska meistaratitilinn í dag. Chelsea tryggði sér sigur á Watford á elleftu stundu með marki Salomon Kalou og stjórinn sagði að líklega hefði jafntefli þýtt að lið sitt hefði ekki geta náð United að stigum.

"Þetta hefði sennilega verið búið í dag ef við hefðum ekki tryggt okkur sigurinn. Stærðfræðilega hefðum við auðvitað geta náð United að stigum þó þeir hefðu náð 8 stiga forystu í dag - því það eru enn 21 stig í pottinum - en það hefði orðið afar erfitt," sagði Mourinho. Hann viðurkenndi að leikurinn hafi ekki verið mikið fyrir augað, en furðaði sig á leikskipulagi heimamanna í Watford.

"Það kom mér á óvart hvernig þeir spiluðu, því ef þeir hefðu hangið á jöfnu hefðu þeir ekki geta sagt neitt eftir þennan leik annað en að þeir hafi haldið jöfnu gegn Chelsea. Ég átti frekar von á að lið í þeirra stöðu myndi tjalda öllu til að reyna að vinna leikinn," sagði Mourinho og bætti því við að leikurinn hefði verið erfiður.

"Það er alltaf erfitt að spila leiki eftir svona ströng landsleikjahlé þar sem menn koma þreyttir til baka og sumir ná ekkert að æfa af neinu ráði. Við spiluðum ekki vel í dag og í raun hefði jafntefli ekki verið ósanngjörn niðurstaða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×