Erlent

Svíþjóð þarf nýja ríkisstjórn, segir Sahlin

MYND/AFP

Svíar þurfa ekki nýjar eða gamlar hófsemishugmyndir heldur nýja ríkisstjórn, sagði Mona Sahlin, sem í dag var kosin formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins á landsfundi í Stokkhólmi.

Sahlin er fyrsta konan sem gegnir embættinu í 118 ára sögu flokksins en hann hefur haldið um stjórnartaumana stærstan hluta síðustu sjö áratugi. Flokkurinn tapaði hins vegar í kosningum í september í fyrra og þá boaði Göran Persson, formaður flokksins, afsögn sína.

Í ræðu sinni dag sagðist Sahlin mjög stolt að vera fyrsta konan til þess að leiða flokkinn. Hún benti á að flokkurinn hefði nú þrjú og hálft ár til að skerpa á hugmyndum jafnaðarstefnunnar fyrir næstu þingkosningar.

Meðal heiðursgesta á landsfundi Jafnaðarmannaflokksins í Svíþjóð er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, en hún ávarpaði samkomuna. Fram kom í máli hennar að þetta væri stór dagur fyrir jafnréttisbaráttuna og fyrir lýðræðið. Það samfélag sem byggði á reynslu bæði kvenna og karla væri sterkara og réttsýnna en samfélag sem ekki nýtti til fullnustu þann mannauð sem býr í báðum kynjum.

Ingibjörg Sólrún gerði málefni barna að sérstöku umtalsefni og sagði það vera hálfkarað og ófullkomið samfélag sem ekki tæki mið af sjónarmiðum og þörfum barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×