Erlent

Kaupmannahafnarlögreglan viðurkennir mistök

Danska lögreglan notaði lífshættuleg og öflug táragashylki gegn mótmælendum við Ungdómshúsið á Norðurbrú í Kaupmannahöfn fyrr í þessum mánuði. Kaupmannahafnarlögreglan hefur viðurkennt mistök sín.

Til harðra átaka kom milli lögreglu og mótmælenda þegar Ungdómshúsið á Norðurbrú í Kaupmannahöfn var rýmt með valdi og síðan rifið fyrr í þessum mánuði. Nokkur kvöld í röð var mótmælt og notaði lögregla táragas til að dreifa mannfjöldanum.

Á fréttavef TV2 er rætt við Flemming Steen Much, talsmann lögreglu, sem viðurkennir að táragashylki af gerðinni Ferret hafi verið notuð og það hafi verið mistök. Það er fyrirtækið Defence Technologies sem framleiðir þessa gerð hylkja.

Framleiðendur segja að ekki eigi að nota þau nema í brýnni neyð og þá helst þegar skjóta þurfi hylkjunum í gegnum þykkar hurðir eða jafnvel veggi. Það geti verið lífshættulegt að skjóta þeim gegn hópi fólks eins og gert var á Norðurbrú. Danskir miðlar segja ekki vitað til þess að nokkur hafi særst af völdum hylkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×