Prófessor við danska landbúnaðarháskólann hefur reiknað út að Danir hafi þyngst um samtals sjöþúsund tonn um hátíðarnar. Það er 1,8 kíló á mann. Arne Astrup segir að það sé mikið borðað þessa daga og að gangan í kringum jólatréð dugi ekki til þess að halda þyngdinni í skefjum.
Astrup telur þó ekki ástæðu til þess að hafa áhyggjur af þessu, aukakílóin hverfi flest í Janúar, þegar fólk byrjar að borða eðlilega. Hann segir að menn eigi ekki að einblína á hátíðarnar, heldur passa upp á lífsstíl sinn allt árið.
"Fólk á ekki að hafa áhyggjur af því að fitna milli jóla og nýárs, heldur á milli nýárs og jóla", segir prófessorinn.
Danska Nyhedsavisen hefur svo reiknað út að Danir hafi þyngst um 3000 flóðhesta.