Erlent

Aftur farið að fljúga frá Heathrow

Tugum flugferða frá Heathrow flugvelli í Lundúnum hefur verið aflýst um helgina vegna veðurs. Nú er aftur farið að fljúga en óvíst er hvort allir komast í flug fyrir jólin.

Flugvél Icelandair sem á að leggja af stað klukkan eitt er þó á áætlun. Þoka hefur legið yfir Heathrow alla helgina með þeim afleiðingum að aflýsa þurfti 90 brottförum og 112 lendingum um helgina. Um eitt þúsund manns gistu á flugvellinum í von um að það rofaði til.

Veðurfræðingar segja að hlýrra veður sé nú komið og þokan að víkja. Brottför flugvélar Icelandair er á áætlun klukkan eitt í dag. Einhver vandræði voru einnig á öðrum flugvöllum en flug British Airways til Íslands frá Gatwick kom á tilsettum tíma í morgun og nú rétt fyrir fréttir var flugvél Iceland Express frá Stansted að leggja af stað frá Stansted til Íslands.

Simon Calder ferðamálafréttamaður segir að ekki séu miklar líkur til að allir komist heim eða í frí.

"Flugfélögin geta endurgreitt miðann eða komið þér á hótel en það er ekki mikil sárabót ef þú missir af jólunum," segir Calder.

Í Bandaríkjunum er líka vont veður og þar fengu þúsundir manna að bíða klukkustundum saman á flugvöllum, einkum í Miðvesturfylkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×