Erlent

Hvetja landsmenn til að slökkva ljósin í hádeginu

Kashiwazaki-Kariwa kjarnorkuverið í Japan skemmdist illa í jarðskjálfta í byrjun sumars.
Kashiwazaki-Kariwa kjarnorkuverið í Japan skemmdist illa í jarðskjálfta í byrjun sumars. MYND/AFP

Japönsk stjórnvöld hvetja nú landsmenn til að draga úr rafmagnsnotkun vegna skorts á rafmagni í landinu. Hefur fólk meðal annars verið hvatt til að slökkva öll ljós í hádeginu. Verulega dró úr rafmagnsframleiðslu í Japan eftir að stærsta kjarnorkuveri landsins var lokað vegna skemmda í byrjun sumars.

Haft er eftir Akira Amari, viðskipta- og iðnaðarráðherra Japans, í frétt Reuters að áætlað er að rafmagnsnotkun í Japan fari yfir 60 milljónir kílóvattstundir í þessari viku. Mikil hitabylgja gengur nú yfir landið og hefur eftirspurn eftir rafmagni, meðal annars til að knýja loftkælingarkerfi, aukist gríðarlega.

Loka þurfti Kashiwazaki-Kariwa kjarnorkuverinu í Japan eftir að jarðskjálfti olli því að leki kom í kjarnaofn versins. Viðgerðir standa enn yfir og hefur raforkuframleiðsla í landinu því dregist verulega saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×