Erlent

Sterkur eftirskjálfti skók Perú

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Sterkur jarðskjálfti skók Perú í dag og jók enn á skelvingu íbúa á skjálftasvæðunum. Tala látinna eftir jarðskjálftann í fyrrakvöld er rúmlega fimm hundruð og á annað þúsund eru slasaðir. Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir eftir skjálftann sem mældist átta á Richter. Björgunarmenn keppast við tímann til að ná til þeirra sem enn eru á lífi í rústunum.

Eftirskjálftinn mældist 5,9 á Richter og skók Huancavelica hérað í suðurhluta landsins þar sem fátækt er mikil. Ekki er vitað til að neinn hafi látist í skjálftanum í dag en fólk á skjálftasvæðunum er skelfingu lostið og margir kjósa að sofa utandyra af ótta við frekari skjálfta.

Hafnarbærinn Pisco um tvö hundruð kílómetra suðaustur af höfuðborginni Lima varð hvað verst úti í skjálftanum. Þar voru hundruð manna voru við messu þegar skjálftinn reið yfir og kirkja hrundi yfir fólkið. Björgunarmenn vinna enn að því að ná um 200 manns út úr rústum kirkjunnar. Alan Garcia forseti perú flaug til borgarinnar Ica í gær þar sem fjórðungur bygginga hrundi. Hann lýsti yfir neyðarástandi á svæðinu og lofaði að fólk fengi vatn og mat. Átján eftirskjálftar yfir fimm á Richter hafa mælst á svæðinu og algjör ringulreið ríkir í borgunum Ica og Pisco þar sem fólk gengur um rústirnar í leit að týndum ættingjum.

Rafmagn, vatn og símaþjónusta liggur niðri á stórum svæðum í suðurhluta landsins. Ríkisstjórnin sendi alla tiltææka lögreglumenn, hermenn og lækna til skjálftasvæðanna, en umferð gekk afar hægt vegna sprungna sem mynduðust á vegum og rafmagnslína sem lágu yfir einn aðal þjóðveginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×