Erlent

Rasmussen býður Khader samstarf

Ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussen hélt velli í dönsku þingkosningunum í gær en þarf að reiða sig á stuðning frá fæereyska þingmanninum Edmund Joensen úr Sambandsflokknum sem er systurflokkur Venstre. Rasmussen hefur boðið Khader til samstarfs.

Nýja bandalagið, flokkur Naser Khaders, náði inn fimm mönnum en Rasmussen þarf ekki á honum að halda við myndun stjórnarinnar. Rasmussen sagði þó í nótt að hann væri tilbúinn að vinna með nýja flokknum enda hefði Khader lýst því yfir fyrir kosningar að hann vildi Rasmussen áfram í embætti.

Eftir kosningarnar er Venstre stærsti flokkurinn á danska þinginu með 26,3 prósent atkvæða og 46 þingmenn. Flokkurinn tapar þó 6 þingsætum frá síðustu kosningum. Samstarfsflokkur Venstre, Íhaldsflokkurinn hélt sínum 18 þingmönnum og Danski þjóðarflokkurinn bætti við sig einum manni og er með 25 þingmenn.

Þessir þrír stjórnarflokkar eru því með 89 þingsæti og reiða sig því á stuðning Joensens. Jafnaðarmannaflokkurinn tapaði tveimur þingsætum og Sósíalíski þjóðarflokkurinn bætti við sig 12 þingmönnum. Radikale venstre tapaði hins vegar 8 sætum og Einingarlistinn tapaði helmingi sinna sæta og er með tvo menn á þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×