Erlent

Drap átta manns til að öðlast frægð

Nú verð ég frægur, sagði 19 ára gamall byssumaður í bréfi til kærustu sinnar skömmu áður en hann hélt inn í verslunarmiðstöð í borginni Omaha í Nebraska og skaut þar átta menn til bana áður en hann framdi sjálfsmorð.

Lögreglan í Omaha hefur borið kennsl á manninn sem hét Robert A. Hawkins og var fyrrum námsmaður. Hann hélt inn í verslunarmiðstöðina í gærkvöldi vopnaður SKS hríðskotabyssu og hóf tilviljanakennda skothríð á fólk sem var þar í jólagjafainnkaupum. Auk þess að drepa átta manns og fremja sjálfsmorð sendi hann fimm manns á sjúkrahús og eru tveir þeirra mjög þungt haldnir. Talið er að Robert hafi hleypt af 35-40 skotum en árásin náðist á öryggismyndavélar verslunarmiðstöðvarinnar

Í sjálfsmorðsbréfinu sem hann lét eftir sig segist Robert ekki vilja vera byrði á neinum lengur, hann telji sig einksis virði en nú muni hann verða frægur.

Það var sambýliskona Roberts sem fann bréfið og hafði samband við móður hans. Sambýliskonan Debra Kovac segir að þau hafi búið saman í hálft annað ár og að hún hafi upphaflega tekið hann að sér þar sem hann leit út eins og týndur hvolpur sem enginn vildi vita af.

Bush bandaríkjaforseti var staddur í Omaha í fjáröflunarferðalagi fyrr um daginn. Hann sagðist í yfirlýsingu vera mjög sorgmættur yfir þessum atburði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×