Erlent

Versta olíumengun í sögu Suður-Kóreu

Stjórnvöld í Suður-Kóreu glíma nú við verstu olímengun í sögu þjóðarinnar. Megnið af þeim 14.000 tonnum sem láku úr olíutankskipi á Gula hafi eftir árekstur við kranapramma hefur skolað á land á vesturströnd landsins

Stjórnvöld hafa gefið út yfirlýsingu þar sem strandsvæðið sem olían hefur mengað er skilgreint sem sérstakt náttúruhamfarasvæði. Þúsundir af Kóreubúum með skóflur og fötur reyna nú að hreinsa strendurnar af olíuunni sem rekið hefur á land. Verst er ástandið í Taean héraðinu sem þekkt er fyrir fallegar strendur sínar.

Um það bil 7.500 sjálfboðaliðar eru nú að störfum í héraðinu og úti fyrir ströndinni eru 105 skip að reyna að hreinsa upp olíuna.Að sögn strandgæslunnar í Suður-Kóreu hafði náðst að hreinsa uppum 565 tonn af olíunni í gærmorgun en það er aðeins um 5% af því magni sem lak í sjóinn. Sjávarfuglar á svæðinu eru svartir af olíu og afkomu töluverðs fjölda af tæplega 4.000 fiskeldisstöðvum sem þarna eru er ógnað.

Stjórnvöld hafa sagt að þau muni aðstoða fiskeldisstöðvarnar fjárhagslega sem og ferðamannaiðnaðinn á svæðinu sem gæti orðið hart úti ef ekki tekst að hreinsa olíumengunina hratt og örugglega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×