Erlent

Fellibylur nálgast Shanghai

Verið er að flytja um 200.000 af íbúum Shanghai á brott frá henni en búist er við að fellibylurinn nái til borgarinnar einhverntímann í kvöld. Fellibylurinn, sem hlotið hefur nafnið Wipha, er af styrkleikaflokki fjögur og vindhraði hans er nú um 250 km á klukkustund.

Fyrir utan flutninga á fólki úr borginni er verið að byrgja fyrir glugga á húsum og koma því fólki sem býr við ótryggar aðstæður í skjól. Fellibylsaðvörun hefur verið gefin út fyrir strandhéruðin í kringum Shanghai og þar er fólk einnig að undirbúa sig fyrir komu Wipha.

Reiknað er með að fellibylurinn fari yfir Taiwan í dag áður en hann skellur á Shanghai. Á Taiwan hefur skólum og opinberum byggingum verið lokað af þeim sökum.

Versti stormur sem skollið hefur á ströndum Kína á seinni árum var fellibylurinn Winnie árið 1997 en þá fórust 236 og eignatjón varð umtalsvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×