Erlent

Segir Bandaríkjamenn vilja hindra aftöku fylgismanna Saddams

Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks.
Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks. MYND/AFP

Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, sakaði Bandaríkjaher í dag um að reyna að hindra að fyrrum meðlimir í ríkisstjórn Saddam Hussein verði teknir af lífi. Mennirnir voru allir dæmdir til dauða í september og áttu aftökurnar að fara fram í síðasta mánuði.

Ali Hassan al-Majeed, frændi Saddams, Sultan Hashem, fyrrum varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Saddams og Hussein Rashid, yfirmaður í her Saddams, voru allir dæmdir til dauða fyrir dómstóli í Írak í september. Samkvæmt íröskum lögum hefði aftakan átt að fara fram í síðasta mánuði eða 30 dögum eftir að dómur féll. Bandaríkjamenn hafa hins vegar enn ekki framselt mennina til írakskra stjórnvalda.

Nuri al-Maliki hefur krafist þess að Bandaríkjamenn láti mennina af hendi svo hægt verði að framfylgja dómnum. Bandaríski herinn hefur þó sagt að mennirnir verði ekki framseldir fyrr en formleg beiðni sem forsætisráðherra, forseti og varaforseti Íraks hafa undirritað verði lögð fram. Nú þegar hefur Tareq al-Hashemi, varaforseti Íraks, lýst yfir andstöðu sinni við aftökurnar nema að forseti landsins samþykki þær sérstaklega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×