Erlent

Ekkert gefið upp um hvenær neyðarlögum verður aflétt

Pervez Musharraf, forseti Pakistans, ætlar að boða til almennra kosninga fyrir 9. janúar næstkomandi. Hann vill þó ekkert gefa upp um hvenær neyðarlögunum verður aflétt.

Musarraf boðaði í morgun til fyrsta fréttamannafundarins síðan að neyðarlög tóku gildi í landinu fyrir rúmri viku. Andstæðingar forsetans hafa mótmælt lögunum og ítrekað hefur komið til átaka milli þeirra og lögreglunnar undanfarið.

Á fundinum í morgun tilkynnti Musharraf að boðað yrði til almennra kosninga fyrir 9. janúar á næsta ári og að staðið yrði við ákvörðun um að leysa upp þingið í næstu viku. Sú ákvörðun forsetans, að leysa upp þingið, hefur verið harðlega gagnrýnd.

Musharraf vildi ekkert segja til um hvenær neyðarlögunum verði aflétt en sagði að hann stæði fast við áform sín um að sverja forsetaeiðinn sem almennur borgari og láta af stöðu sinni sem æðsti yfirmaður pakistanska hersins.

Lögreglan hefur handtekið fjölmarga mótmælendur undanfarið, sjónvarpsstöðvum hefur verið lokað og erlendum fréttamönnum vísað úr landi svo eitthvað sé nefnt. Allt gefur þetta andstæðingum Musarrafs tilefni til gagnrýni og áskana um einræðislega tilburði. Musharraf er undir miklum þrýstingi bæði frá andstæðingum sínum og vestrænum bandamönnum að tryggja lýðræði í landinu.

Í morgun hélt Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra og einn helsti andstæðingur Musharraf, frá Islamabad til Lahore þar sem fjöldamótmæli eru áformuð á þriðjudaginn. Krafa Bhutto og stuðningsmanna hennar er að neyðarlögin verði felld úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×