Erlent

Skorinn upp á höfði í stað hnés

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
MYND/Getty Images

Emanuel Didas sem lagður var inn á sjúkrahús í Tansaníu eftir mótorhjólaslys og beið eftir hnéuppskurði liggur nú meðvitundarlaus á gjörgæslu eftir uppskurð á höfði. Spítalinn gerði þessi afdrifaríku mistök eftir að nöfnum tveggja sjúklinga var ruglað saman, en þeir bera sama fornafn.

Emmanuel Mgaya, sem er krónískur mígrenissjúklingur, er hins vegar á batavegi eftir óvæntan hnéuppskurð.

Reiðir aðstandendur krefjast nú rannsóknar á atvikinu við Muhimbili sjúkrahúsið í höfuðborginni Dar es Salaam.

Læknar og yfirmenn hafa ekki viljað tjá sig um málið sem kom upp í síðustu viku og hefur ekki verið tilkynnt til yfirvalda.

Heilbrigðisráðuneytið og félagsyfirvöld segjast hafa fyrirskipað rannsókn á málinu.

"Þetta er vanræksla í starfi. Læknir hlýtur að vita að hné er töluvert langt frá höfði," sagði einn ættingi Didas við BBC.

Fjölskyldan sem vakir yfir Didas á gjörgæsludeildinni er í sjokki og hefur ekki fengið nánari upplýsingar um þessa óvæntu höfuðaðgerð.

"Læknarnir hafa ekki einu sinni sagt okkur að Emmanuel hafi verið skorinn upp á höfði."

Ættingjar Emmanuel Mgaya eru miður sín. Emmanuel er nemandi í menntaskóla og hafði fengið mikla höfuðverki við próflestur þegar hann var lagður inn á spítalann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×