Erlent

Tugir látnir eftir flóð í Kína

MYND/AP

Á sjöunda tug manna eru látnir og yfir 600 þúsund hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir mikil flóð í suðurhluta Kína. Flóðin má rekja til mikilla rigninga í nokkrum héruðum landsins en þar hefur rignt sleitulaust í fjóra daga.

Talið er að nærri 50 þúsund heimili séu ónýt eftir flóðin og þá hafa orðið skemmdir á uppskeru á nærri 300 þúsund hektara svæði. Enn fremur hafa vegir og vatnsból skemmst í flóðunum. Kínversk stjórnvöld meta tjónið á nærri fimmtíu milljarða króna.

Björgunarlið hafa haft í nógu að snúast við að koma fólki til aðstoðar og flytja til þess hjálpargögn en 12 manna er enn saknað. Flóð sem þessi eru árviss viðburður í Kína og hefur gengið misjafnlega að verja minni þorp gegn þeim. Ríflega 2700 manns létust í flóðum og fellibyljum á síðasta ári í Kína.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×