Enski boltinn

Vieira saknar Englands

Patrick Vieira hefur verið frábær hjá Inter í ár.
Patrick Vieira hefur verið frábær hjá Inter í ár. MYND/Getty
Patrick Vieira, hinn franski miðjumaður Inter á Ítalíu, hefur viðurkennt að hann sakni ensku úrvalsdeildarinnar. Fyrst og fremst er það ástríða stuðningsmanna ensku liðanna sem hann sér eftir, en Vieira segir hana ekki vera til staðar á Ítalíu. Vieira hefur þrívegis mætt á Emirates-leikvanginn og fylgst með sínum gömlu félögum.

"Ég fer til London í hvert sinn sem ég hef tækifæri til. Ég hef þegar farið þrisvar sinnum á Emirates og ég tel hann vera einn fallegasta leikvang sem til er," sagði Vieira í samtali við The Sun í Englandi.

"Ég sakna Englands og fyrst og fremst ástríðunnar sem stuðningsmenn og leikmenn liða í landinu hafa fyrir fótboltanum," sagði Vieira einnig.

Vieira heldur góðu sambandi við Thierry Henry, fyrirliða Arsenal, en vildi þó lítið tjá sig um sögusagnir þess efnis að hann kynni að yfirgefa herbúðir liðsins í sumar.

"Ég veit að hann vildi alls ekki fara frá liðinu síðasta sumar þrátt fyrir að hafa fengið mörg tilboð. Það var besta ákvörðunin á þeim tímapunkti, bæði fyrir hann sjálfan og Arsenal. Nú þarf hann að taka nýja ákvörðun og það er að mörgu að hyggja, meðal annars aldur hans," sagði Vieira um mál Henry.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×