Enski boltinn

Yrði draumur að spila með Bristol

Hefur auga á draumastaðnum í augnablikinu, næstefstu deild í Englandi.
Hefur auga á draumastaðnum í augnablikinu, næstefstu deild í Englandi. MYND/Stefán

Kjartan Henry Finnbogason vonast til þess að ganga til liðs við nýliða Bristol City í Championship-deildinni í Englandi. „Bristol City er búið að hafa samband og vill sjá meira af mér. Mér líst rosalega vel á það. Championship-deildin heillar auðvitað mjög mikið, 20.000 manns á hverjum leik og það væri draumur að spila þar.

Þessi deild, og reyndar deildin fyrir neðan, eru góðir stökkpallar enda er vel fylgst með þeim," sagði Kjartan en samningur hans við Celtic rennur út í næstu viku.

Kjartan Henry mætti á sínu fyrstu æfingu með KR í gær en hann fær að æfa með sínu gamla félagi þar til framtíð hans skýrist. Liðið sem hann gengur til liðs við, að því gefnu að hann fari frá Celtic sem allar líkur eru á, þarf að greiða skoska félaginu um 150 þúsund pund í uppeldisbætur, tæpar nítján milljónir íslenskra króna. Kjartan tekur lífinu þó með ró þessa stundina.

„Ég er mjög rólegur yfir þessu. Bristol er að fara í frí en fer í æfingaferðalag í byrjun júlí og mér stendur til boða að fara í það með þeim. Það er óþægilegt að þurfa að segja nei við alla aðra þangað til, sérstaklega ef ég myndi síðan enda á því að semja ekki við þá. Ef það gengur ekki upp myndi ég líklega stökkva á eitthvað gott tilboð á Norðurlöndunum," sagði Kjartan en fjöldamörg lið vilja fá hann til sín til reynslu.

KR hefur rætt við Kjartan um að hann spili með félaginu í sumar og Kjartan segir að ekki sé útilokað að hann gangi í þeirra raðir. Teitur Þórðarson, þjálfari KR, sagði við Fréttablaðið í gær að ákvörðunin væri alfarið Kjartans en hann kæmi til með að styrkja hóp KR, gengi hann í félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×