Erlent

Kaþólska kirkjan greiðir þolendum kynferðisofbeldis bætur

MYND/AFP

Kaþólska kirkjan í Pittsburg í Bandaríkjunum hefur komið á fót styrktarsjóði til handa 32 einstaklingum sem urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu kaþólskra presta. Alls lagði kirkjan um 80 milljónir króna í sjóðinn en peningunum verður dreift til fórnarlambanna.

Stofnun sjóðsins er í samræmi við samkomulag sem Kaþólska kirkjan í Pittsburg gerði við fórnarlömbin, 23 karla og 9 konur. Samkomulagið var gert eftir að dómstólar í Pittsburg vísuðu málsókn fólksins á hendur kirkjunni frá dómi þar sem of langur tími var liðinn frá því meint brot áttu sér stað.

Flest brotin eiga að hafa átt sér stað fyrir árið 1960.

Alls voru um tuttugu kaþólskir prestar í Pittsburg sakaðir um kynferðislega misnotkun en margir af þeim eru látnir. Peningunum verður dreift til fórnarlambanna og verður þá meðal annars miðað við eðli brotsins og afleiðingar þess fyrir fórnarlambið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×