Erlent

Frakkar vígreifir gegn Íran

Þórir Guðmundsson skrifar

Frakkar hvöttu í dag til hertra viðskiptaþvingana gegn Íran en sögðu að leita yrði allra leiða til að koma í veg fyrir stríð.

Bernard Kouchner hinn nýji utanríkisráðherra Frakka skaut fyrsta skotinu í þessari hrinu deilna Írana og umheimsins þegar hann kom fram í sjónvarpsviðtali í gær.

Kouchner sagði fréttamann: "Við verðum að búa okkur undir það versta." Þá spurði fréttamaðurinn: "Og hvað er það versta?", en því svaraði Kouchner, "Það er stríð, herra minn."

Ahmedinejad forseti Írans svaraði í dag með því að segja að allir virtu rétt Írana til að framleiða kjarnorku, nema eitt eða tvö ríki sem enn teldu sig til stórvelda.

Á aðalfundi Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar í Vín í dag reyndi forstjóri stofnunarinnar að lægja öldurnar. Muhammed ElBaradei sagðist ekki telja að um yfirvofandi hættu væri að ræða í Íran, sem krefðist annarra úrræða en sáttaviðræðna.

Íranar segja að kjarnorkuvinnsla í landinu sé til að framleiða raforku en ekki vopn. En frönsk stjórnvöld gáfu ekkert eftir í dag og Kouchner utanríkisráðherra ræddi við starfsbræður sína innan Evrópusambandsins um frekari efnahags- og viðskiptaþvinganir á hendur Írönum.

Yfirlýsingar Frakka eftir valdatöku Sarkosys forseta þykja nálgast mjög málflutning Bandaríkjamanna. Íranar sögðu hins vegar í dag að stríðsæsingatal væri Frökkum ekki sæmandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×