Erlent

Umbætur halda áfram í Grikklandi

Grískir íhaldsmenn segjast munu halda áfram efnahagslegum umbótum í landinu, þó að þeir hafi nú mun tæpari meirihluta á þingi eftir kosningar í gær.

Liðsmenn Nýja lýðræðisflokksins, flokks Costasar Karamanlis forsætisráðherra, höfðu svo sannarlega ástæðu til að fagna í gærkvöldi þegar úrslit þingkosninga lágu fyrir. Þrátt fyrir andstreymi í kosningabaráttunni náðu þeir hreinum meirihluta á þingi, þó tæpur sé. Af þrjú hundruð þingsætum halda þeir 152.

Karamanlis hefur hlotið lof samstarfsríkja í Evrópusambandinu fyrir að hafa haldið vel á efnahagsmálum. Atvinnuleysi hefur minnkað og hagvöxtur verið ágætur undir hans stjórn frá 2004.

Karamanlis þykir óvenjulegur stjórnmálamaður í Grikklandi, að því leiti að hann sækist ekki eftir kastljósinu og þykir miðjusækinn í stefnumálum. Hann lofaði að ráðast gegn spillingu, þegar hann komst til valda fyrir þremur árum, en þykir ekki hafa náð miklum árangri á því sviði.

Hann vill gera miklar umbætur í menntamálum en talið er að tæpur meirihluti á þingi eftir kosningarnar í gær geti orðið dragbítur á miklar breytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×