Erlent

Megrun borgar sig

MYND/REUTERS

Rúmlega helmingur þeirra einstaklinga sem fara í megrun viðhalda þyngdartapinu að einhverju leyti ári eftir að megruninni lýkur samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn. Niðurstöðurnar eru á skjön við aðrar rannsóknir sem hafa sýnt fram á hið gagnstæða. Um 59 prósent þeirra sem tóku þátt í rannsókninni voru enn undir sinni upprunalegu þyngd ári eftir að þeir hættu í megrun.

Hingað til hefur því verið haldið fram að þeir sem fara í megrun þyngist jafnharðan aftur um leið og þeir hætta. Í sumum tilfellum verði jafnvel þyngri. Samkvæmt rannsókn bandarískra heilbrigðisyfirvalda bendir allt til þess að þetta standist ekki fullkomlega.

Alls tóku 1.310 einstaklingar af báðum kynjum þátt í rannsókninni sem stóð yfir í eitt ár. Um 59 prósent þeirra sem tóku þátt í rannsókninni þyngdust ekki á þeim tíma sem rannsóknin stóð yfir og 8 prósent léttust á tímabilinu. Þriðjungur þátttakenda þyngdust hins vegar töluvert.

Samkvæmt rannsókninni koma þeir best út sem hreyfa sig reglulega og borða hollan mat. Þá virðist langtíma sjónvarpsgláp almennt einkenna þá sem þyngdust hvað mest á þeim tíma sem rannsóknin stóð yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×