Erlent

Saka sambandssinna um svik

Brestir í samstjórninni Stormont-kastali, aðsetur norður-írska þingsins. nordicphotos/AFP
Brestir í samstjórninni Stormont-kastali, aðsetur norður-írska þingsins. nordicphotos/AFP
Norður-Írland, AP Samskipti sambandssinnaðra mótmælenda og lýðveldissinnaðra kaþólikka á Norður-Írlandi versnuðu í vikunni, er fulltrúar sambandssinna á norður-írska þinginu komu í veg fyrir að samþykkt yrðu lög sem höfðu að markmiði að auka veg gelísku á Norður-Írlandi.

Lýðveldissinnar eru mjög áfram um að hið forna mál Íra hljómi meira á eynni grænu, þar sem enska er annars allsráðandi. Í írska lýðveldinu nýtur gelískan stjórnarskrárverndar og í Skotlandi eru í gildi bresk lög sem stuðla að viðgangi hennar.

En Edwin Poots, ráðherra menningarmála í norður-írsku heimastjórninni, sem sjálfur er mótmælandi, tjáði þinginu í Belfast að hin áformuðu lög um viðgang írskrar tungu yrðu of dýr í framkvæmd og myndu að auki stuðla að auknum klofningi trúarhópa.

Í sameiginlegum friðartillögum forsætisráðherra Írlands og Bretlands frá því í fyrra, sem leiddu til endurreisnar samstjórnar hinna áður stríðandi fylkinga á Norður-Írlandi, var kveðið á um að stutt skyldi við viðgang gelískunnar. Enda sökuðu leiðtogar kaþól­ikka sambandssinna um að ganga á bak því sem samið hefði verið um og hótuðu að leita íhlutunar af hálfu bresku stjórnarinnar, sem heldur eftir sem áður æðsta stjórnvaldi á Norður-Írlandi.

Poots sagði það hlálegt ef lýðveldissinnar sem lengi hefðu barist gegn yfirráðum Breta skyldu nú leita á þeirra náðir vegna þessa máls. - aa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×