Erlent

Tíu prósent ungra í Danmörku smituð af klamidíu

Tíu prósent ungra Dana eru með klamidíu, og fjörtíu prósent þeirra nota ekki smokka, að sögn heilbrigðisyfirvalda í Danmörku. Þau hafa nú hafið herferð til að draga úr útbreiðslu kynsjúkdóma, en fleiri en 50 þúsund smitast af kynsjúkdómum á ári hverju í Danmörku.

Herferðin hvetur ungt fólk til að nota smokkinn. Sveitarfélög dreifa stuttermabolum, viðburðir verða haldnir á diskótekum og frægt fólk kemur fram í auglýsingum til að vekja athygli á málinu.

Eigandi smokkabúðarinnar RipNRoll.dk, Christoffer Steenbeck,  gagnrýnir herferðina í Jótlandspóstinum í dag. Hann segir þetta allt saman hafa verið reynt áður án árangurs. Hann bendir þó á að aðrar aðgerðir gætu gefist betur. Til að mynda hans eigin. Fyrirtæki hans hefur farið í samstarf við plötufyrirtæki, sem ætlar að auglýsa listamenn sína á smokkunum.

Steenbeck segir að aukið aðgengi að smokkum muni minnka útbreiðslu á kynsjúkdómum, fækka fóstureyðingum, og þar með spara þjóðfélaginu mikinn pening.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×