Breiðablik og Keflavík unnu heimasigra í Landsbankadeild kvenna í gærkvöldi. Blikastúlkur sendu leikmenn Þórs/KA stigalausa heim norður á Akureyri eftir 2-0 sigur. Greta Mjöll Samúelsdóttir og Laufey Björnsdóttir skoruðu fyrir Blika.
Keflavíkurstúlkur unnu Stjörnuna 3-1 þar sem Lilja Íris Gunnarsdóttir skoraði tvö mörk og Una Harkin eitt. Harpa Þorsteinsson minnkaði muninn fyrir Stjörnuna en það dugði þeim skammt.
Keflavík er þar með komið upp í 18 stig en Breiðablik hefur 16. Þau eru þó enn langt á eftir toppliðunum þar sem tveggja hesta kapphlaup er um titilinn.
Valsstúlkur eru efstar í deildinni með 28 stig eftir tíu leiki en KR fylgir fast á eftir. KR-stúlkur eiga leik til góða en þær mæta Fjölnisstúlkum í kvöld. Með sigri í þeim leik jafna þær Valsstúlkur að stigum.