Erlent

AC Milan og Liverpool í undanúrslit Meistaradeildarinnar

Leikmenn AC Milan fagna sigrinum á Bayern München í kvöld.
Leikmenn AC Milan fagna sigrinum á Bayern München í kvöld. MYND/Getty Images
AC Milan mætir Manchester United í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir að ítalska liðið lagði Bayern München 2-0 í seinni leik liðanna í Þýskalandi í kvöld. Þá tryggði Liverpool sér einnig sæti í undanúrslitunum með því að leggja hollenska liðið PSV Eindhoven 1-0 á Anfield í kvöld. Þar mætir liðið Chelsea líkt og í undanúrslitum keppninnar 2005.

Fyrri leikur AC Milan og Bayern endaði 2-2 í Mílanóborg og því var ljóst að á brattan yrði að sækja fyri Milan í Þýskalandi. Leikmenn Milan voru hins vegar sterkari í München í kvöld og komust í 2-0 í fyrri hálfleik með mörkum Clarence Seedorf og Filippo Inzaghi. Það urðu jafnframt lokatölur leiksins og því sigraði AC Milan samanlagt 4-2.

Fyrir viðureign Liverpool og PSV á Anfield þótti ljóst að róðurinn yrði mjög þungur fyrir hollenska liðið þar sem það tapaði fyrri leiknum á heimavelli 3-0. Eitt mark var skorað í kvöld og það gerði Peter Crouch á 67. mínútu. Liverpool vann því samanlagt 4-0.

Fyrsti leikurinn í undanúrslitunum verður viðureign Manchester United og AC Milan á Old Trafford þann 24. apríl og daginn eftir verður fyrri leikur Chelsea og Liverpool á Stamford Bridge í Lundúnum. Síðari leikur Milan og Man Utd fer fram í Mílanó 2. maí og daginn eftir spila Liverpool og Chelsea á Anfield í Liverpool. Leikirnir, sem og úrslitaleikurinn á Ólympíuleikvangnum í Aþenu þann 23. maí, verða allir sýndir beint á sjónvarpsstöðinni Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×