Baldur Aðalsteinsson mun væntanlega skrifa undir nýjan samning við Val á næstu dögum. Þetta segir hann í samtali við Vísi.
„Ég hef verið í viðræðum við Val undanfarið og á von á að þetta klárist á næstu dögum. Það er ekki enn búið að skrifa undir neitt og þangað til er ekkert 100% öruggt í þessum efnum. En það er lang, langlíklegast að ég verði áfram í Val.“
Hann segir að Valur hafi alltaf verið fyrsti kostur hjá honum en núverandi samningur hans er útrunninn. „Ég ræddi ekkert við önnur lið. Það voru einhverjir sem hringdu í mig til að kanna minn hug en ég hef ekki setist niður með neinum nema Val.“
Baldur býst við því að skrifa undir tveggja ára samning við Val.