Erlent

Bhutto til Islamabad en ræðir ekki við Musharraf

MYND/AP

Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, fór til Islamabad í morgun en sagðist við brottförina ekki mundu ræða við Musharraf forseta, sem nú ríkir í skjóli neyðarlaga. Hún segist þvert á móti ætla að ræða við stjórnarandstæðinga og þvertekur fyrir að hún kunni að taka sæti í bráðabirgðastjórn. Lögregla í Pakistan hélt áfram að handtaka lögmenn í dag.

Þó að stjórnvöld í Pakistan hafi í gær tilkynnt að kosningar verði haldnar á tilsettum tíma í janúar þá er ekkert lát á aðgerðum til að bæla niður alla andstöðu við Musharraf forseta. Lögmenn halda áfram að mótmæla og lögregla tekur á móti þeim af hörku. Lögreglumenn börðu einn lögmann með barefli og spörkuðu í hann á meðan hann var settur inn í fangabíl.

Ekki er ljóst hvernig Musharraf forseti ætlar að koma sér út úr þeirri klípu sem hann er í. Hann réðst gegn hæstarétti um það bil sem rétturinn var að fara að úrskurða hvort endurkjör hans í embætti forseta hefði verið löglegt. Nú hefur hann látið undan þrýstingi Bandaríkjamanna um að halda þingkosningar um miðjan janúar, eins og ráðgert hafði verið.

Forseti hæstaréttar er í stofufangelsi en hann ávarpaði samkomu lögfræðinga um síma og sagði að Musharraf hefði rifið stjórnarskrána í tætlur og nú væri kominn tími til að færa fórnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×