Erlent

Skuraðgerð á stúlku með fjórar hendur og fjóra fætur

Indverskir læknar berjast nú við að gefa 2ja ára gamalli stúlku tækifæri til að lifa eðlilegu lífi. Stúlkan fæddist með fjórar hendur og fjóra fætur.

Stúlka þessi Tatma að nafni er í raun með óþroskaða tvíburasystur sína tengda við mjaðmir sínar. Hópur skurðlækna í borginni Bangalore vinnur nú á vöktum allan sólarhringinn við að aðskilja mænu og nýru tvíburans frá Tatmu. Þeir vona að aðgerðin muni gera það að verkum að Tatma lifi fram á fullorðinsár.

Læknirinn sem stjórnar aðgerðinni segir í samtali við BBC að hópurinn hafi undirbúið sig undir 40 stunda skurðaðgerð og að of snemmt sé að segja til um nú hverjar líkurnar séu á því að aðgerðin heppnist vel.

Tatma kemur frá litlu þorpi við landamærin að Nepal. Er hún komst í hendur læknanna í Bangalore var hún þakin sárum og þjáðist af hitasótt enda hafði hún ekki notið neinnar læknishjálpar frá fæðingu.

Þorpsbúar telja að Tatma sé endurholgun á hindúagyðjunni Lakshmi og vildu ekki að skurðaðgerðin yrði framkvæmd. Foreldrar stúkunnar voru þó samþykkir aðgerðinni. Eineggja tvíburar sem fæðast samvaxnir eru mjög sjaldgæfir eða í eitt af hverjum 200.000 skiptum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×