Erlent

Tígrisdýr drap einn og slasaði tvo í San Fransisco

Einn lést og tveir slösuðust þegar tígrisdýr réðist á þá eftir að það slapp úr búri í dýragarðinum í San Fransisco. Atvikið átti sér stað rétt undir lokun dýragarðsins klukkan 17 að staðartíma í gær, eða klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma. Fórnarlömbin voru gestir í garðinum.

Tatiana sem er síberískur tígur reif í sig handlegg gæslumanns rétt fyrir jólin í fyrra og var skotin til bana eftir atvikið nú. Ekki er ljóst hvernig tígurinn slapp úr búrinu.

Dýragarðurinn var rýmdur og vopnaðir lögreglumenn og slökkviliðsmenn sendir á staðinn. Fáir gestir voru í garðinum á jóladegi og myrkur var skollið á þegar lögregla kom á staðinn.

Lík mannsins sem lést fannst rétt fyrir utan Ljónahúsið. Lögregla fann annað fórnarlamb við kaffihús 300 metrum frá. Maðurinn sat á jörðinni og blóð lak úr sári á höfði hans. Tatiana sat við hliðina á manninum og réðist skyndilega aftur á hann samkvæmt upplýsingum Steve Mannia talsmanns lögreglunnar. Lögreglumennirnir skutu dýrið þá til bana. Þriðja fórnarlambið fannst inni á kaffihúsinu. Fórnarlömbin voru öll karlmenn á þrítugsaldri og þeir sem lifðu árásina af eru alvarlega slasaðir.

Eftir að Tatania slasaði gæslumanninn í fyrra var byggð ný girðing til að vernda gæslumenn sem gefa dýrunum í Ljónahúsinu að borða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×